*

sunnudagur, 23. febrúar 2020
Innlent 21. desember 2016 12:49

Prentmiðlar enn stærstir í auglýsingum

Prentmiðlar eru enn stærstir á auglýsingamarkaði á Íslandi með um þriðjungshlut, en netmiðlar bæta við sig milli ára.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Prentmiðlar fengu stærstan hluta auglýsingatekna á Íslandi árið 2015, eða 32,3%. Talan var þó hærri ef einungis er litið til upplýsinga frá birtingarhúsum. 

Hlutur prentmiðla af birtingarfé var 37% árið áður. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Árskýrslu Fjölmiðlanefndar, en í ár óskaði nefndin hvort tveggja eftir upplýsingum frá auglýsingastofum og öðrum birtingarhúsum sem og frá fjölmiðlunum sjálfum. 

Þar sem einungis hluti fjölmiðla sendi gögn telja þeir sig ekki hafa fullnægjandi yfirsýn yfir markaðinn í heild, en talið er að birtingarhús kaupi um helming allra auglýsinga á markaðnum. 

Prentmiðlar enn mest nýtti vettvangurinn

„Þrátt fyrir að hlutur prentmiðla hafi minnkað um nokkur prósentustig milli ára eru þeir enn þá sá vettvangur sem birtingahús og auglýsendur nýta hvað mest til að koma auglýsingum sínum og viðskiptavina sinna á framfæri,“ segir meðal annars í ársskýrslunni. 

Sjónvarp fylgdi í kjölfar prentmiðla með 30% hlut af heildarauglýsingafé og virðist sjónvarp annað hvort bæta eilítið við sig eða minnka eilítið eftir því hvort horft er til upplýsinga frá fjölmiðlunum eða birtingarhúsunum.

Hlutur útvarps og netmiðla jókst

Hins vegar jókst hlutur útvarps lítillega eða um eitt prósentustig en á síðasta ári rann 16,8% auglýsingafjár til útvarpsmiðla.

Hlutur innlendra vefmiðla jókst um 3 prósentustig milli ára, fór úr 12,4% árið 2014 í 15,2% í fyrra, að því er virðist á kostnað prentmiðla. Þau birtingarhús sem tóku þátt í samantektinni juku auglýsingaútgjöld sín um 4,8% milli áranna.