Wyndeham Press Group hefur gengið frá samningum um prentun á Time og Newsweek fyrir Bretlandsmarkað næstu þrjú árin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Wyndeham mun vikulega prenta samanlagt 195.000 eintök af blöðunum, 142.000 eintök af Time og 53.000 eintök af Newsweek.

Prentunin mun fara fram í Heron prentsmiðju Wyndeham í Maldon í Essex, um 80 km fyrir norð-austan London.

Dagsbrún keypti Wyndeham Press Group, sem er 3. stærsta prentfyrirtæki Bretlands, í mars síðastliðnum og hafa bresk samkeppnisyfirvöld samþykkt yfirtökuna. Forstjóri Wyndeham er Paul Utting.