Prentsmiðjan Oddi hefur keypt útgáfufélagið Fróða en danska útgáfufélagið Aller hafði einnig áhuga og voru samningar við það raunar langt komnir þegar Oddi lét til skarar skríða.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins ákvað Magnús Hreggviðsson fyrir allnokkru að draga sig út úr rekstri Fróða af heilsufarsástæðum, en hann hefur verið stjórnarformaður félagsins í fullu starfi. Fljótlega eftir að leit hófst að hugsanlegum kaupanda kom í ljós áhugi frá Aller, sem er stærsti tímaritaútgefandi Norðurlanda, selur 3,2 milljónir eintaka í viku hverri, á m.a. Se og hör og hugði reyndar um tíma á lögsókn gegn Fróða vegna Séð og heyrt. Var nánast búið að ganga frá samningum við Aller þegar Oddi skarst í leikinn. Gengið var frá samningi við Odda á mjög skömmum tíma en kaupandinn er reyndar Torg hf., félag í eigu Odda.

"Fróði hefur verið stór kúnni hjá okkur," segir Knútur Signarsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs Odda. "Aller eiga prentsmiðjur erlendis þannig að kaupin eru meðal annars gerð til þess að halda prentun í landinu." Fróði, sem var stofnaður um miðjan sjöunda áratug, hefur um áratugaskeið verið umsvifamesta tímaritaútgáfa landsins. Fyrirtækið gefur nú út sjö tímarit: Nýtt Líf, Mannlíf, Vikuna, Séð og heyrt, Gestgjafann, Hús og híbýli og bOGb. Ekki þarf að fjölyrða um hagsmuni Odda af áframhaldandi viðskiptum við Fróða. Meðal annars skiptir miklu að um er að ræða jöfn og þétt viðskipti allt árið og felst í því mikilvægt mótvægi við jólabókavertíðina.

Í viðskiptablaðinu í dag segir Knútur ekkert hæft í vangaveltum um að prentsmiðjan taki Fróða yfir vegna skulda. Hann segir að ársvelta Fróða hafi verið yfir milljarður króna í fyrra en vissulega hafi skipst á skin og skúrir í rekstrinum. "Við förum hins vegar ekki inn í þetta nema vegna þess að við teljum að þetta sé hagur beggja," segir Knútur. Hann vill ekki gefa upp kaupverðið. Hann er spurður hvort Oddi ætli að eiga Fróða til frambúðar eða leita að nýjum kaupanda og svarar því til að ekki blasi við hver annar ætti að kaupa félagið. Norðurljós eru nefnd til sögunnar en undirtektir blendnar: "Ég veit ekki hvað myndi gerast í þjóðfélaginu!" segir Knútur.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er almenn ánægja með það meðal starfsmanna Fróða að Oddi skyldi kaupa félagið frekar en erlendi útgáfurisinn. Staða nokkurra stjórnenda kann að vera tvísýn en Knútur Signarsson segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um breytingar hjá Fróða, hvorki í yfirstjórn né annars staðar.

Magnús Hreggviðsson heldur eftir tveimur fyrirtækjum öðrum: Frjálsu framtaki, sem er fasteignafélag sem á meðal annars húsnæði Fróða við Seljaveg, og Íslenskum fyrirtækjum.