Stefnt er að því að prentun Fréttablaðsins færist aftur yfir í Ísafoldarprentsmiðju eftir áramótin og að blaðið verði prentað þar að minnsta kosti fyrstu tvo mánuði næsta árs.

Í kjölfar fyrirhugaðrar sameiningar Morgunblaðsins og Fréttablaðsins var prentsamningi við Ísafoldarprentsmiðju sagt upp og var upphaflega gert ráð fyrir að prentun Fréttablaðsins yrði hætta þar 1. desember sl. Samkeppnisyfirvöld hafa ekki lokið skoðun sinni á sameiningunni.

Að sögn Kristþórs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Ísafoldarprentsmiðju, hafði hluta starfsfólks Ísafoldarprentsmiðju verið sagt upp í kjölfar þess að prentun Fréttablaðsins yrði hætt og innkaup á pappír dregin saman. Þegar hins vegar hefði komið ósk um að prenta blaðið áfram hefði það verið samþykkt með því fororði að Árvakur lánaði Ísafoldarprentsmiðju pappír. Síðar hefði komið í ljós að ekki var hægt að lána allan þann pappír sem þurfti og því fór prentun Fréttablaðsins yfir til Landsprents, prentsmiðju Árvakurs, 18. desember síðastliðin. Dreifing blaðanna var þó áfram sitt í hvoru lagi.

,,Við erum að koma þessu í gang aftur til að geta prentað þessa tvo mánuði," sagði Kristþór.