Það tók fimm kynslóðir velskrar fjölskyldu heil 124 ár að byggja upp fyrirtækið Taylor & Sons Ltd. Það þurfti hins vegar ekki meira en eina litla prentvillu til þess að setja fyrirtækið í þrot.

Þannig atvikaðist að lögbirtingablað í Bretlandi birti tilkynningu um að fyrirtækið Taylor & Sons Ltd. hefði orðið gjaldþrota og að lýst væri eftir kröfum í þrotabúið. Það var hins vegar annað fyrirtæki, Taylor & Son, sem hafði orðið gjaldþrota.

Villan leiddi til þess að viðskiptamenn fyrirtækisins, sem staðsett er í Cardiff, fóru með viðskipti sín annað og drógu til baka innlagðar pantanir. Fór fyrirtækið í þrot í kjölfarið og höfðaði skaðabótamál gegn breska ríkinu.

Nú hefur verið dæmt í málinu þar sem fyrirtækinu var dæmdar skaðabætur að fjárhæð níu milljóna punda, en fjárhæðin samsvarar tæpum tveimur milljörðum íslenskra króna. Getur starfsemi fyrirtækisins því vonandi hafist fljótlega að nýju.

Nánar á vef The Telegraph .