Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, bendir á að bróðurpartur hagvaxtar heimsins eigi sér stað utan Evrópusambandsins. Því sé sérstaklega mikilvægt að Bretland hafi frelsi til að semja um eigin viðskiptaskilmála við þau lönd og svæði sem standa undir mestum vexti.

„Næstu árin verður áhersla viðskiptastefnu Bretlands á lönd á borð við Indland, Suður-Asíu og fleiri, sem við teljum vænlegt að auka megi viðskipti við hvað mest. Öllum árum verður róið að því að styrkja tengslin við þessi lönd.“

Sjá einnig: Áhrif Brexit áratug að koma fram

Tvíhliða viðræður við einstök lönd eru þó ekki eina leiðin sem Bretland sér fyrir sér til að efla utanríkisviðskipti. „Hinn vettvangurinn eru alþjóðlegar stofnanir, sér í lagi Alþjóðaviðskiptastofnunin (AVS, á ensku WTO). Við munum setja mun meiri kraft í þátttöku okkar þar, og vonumst til að geta aukið metnað alþjóðasamfélagsins fyrir stofnuninni og því sem hún stendur fyrir. Við munum einnig leggja ríka áherslu á og kraft í að þróa og festa í sessi alþjóðlega staðla. Frjáls verslun verður að byggja á nútímalegum, framsæknum, sanngjörnum og gagnsæjum alþjóðlegum kerfum og stöðlum. Takist okkur það mun það hafa mun víðtækari áhrif en tvíhliða samningar við einstök ríki og svæði.“

Tækist að auka fríverslunarskuldbindingar AVS myndi það leiða til frjálsari viðskipta Breta, og allra annarra meðlimaríkja, við öll önnur ríki innan þess á einu bretti. Nevin segir áhersluna munu skiptast nokkuð jafnt á milli þess að gera einstaka fríverslunarsamninga og að beita sér fyrir aukinni fríverslun almennt innan stofnana á borð við AVS. „Nú er pressan á okkur að sýna að við getum náð þessum markmiðum eftir útgönguna.“

Gagnkvæmur vilji til enn frjálsari vöruviðskipta
Í nýlegu viðtali við Viðskiptablaðið lýsti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra yfir vilja íslenskra stjórnvalda til að semja við Bretland um enn frjálsari vöruviðskipti en verið hafi meðan landið var innan Evrópusambandsins. Guðlaugur sagði enn fremur að Bretar hefðu tekið vel í slíkar hugmyndir.

Sjá einnig: Þorskastríðin og EM 2016 koma alltaf upp

Nevin tekur í sama streng og staðfestir að slíkur vilji sé til staðar allt frá Boris Johnson forsætisráðherra og niður eftir stjórnkerfinu. Báðir minntust þeir þó sérstaklega á að slíkan samning þurfi að gera með hliðsjón af skuldbindingum Íslands gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu.

„Það skal einnig haft í huga að viðskipti okkar á milli voru afar frjáls fyrir. Í hreinskilni sagt er einfaldlega ekki mikið svigrúm til að auka frelsi á þessum hefðbundnu sviðum því það eru svo litlar hindranir nú þegar.“

Nánar er rætt við Nevin í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .