Pressan ehf. hefur fengið undanþáguheimild frá samkeppnislögum til að ganga frá samruna við DV á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann. Þá geta fyrirtækin byrjað að samþætta verklag og þjónustu. Kjarninn greinir frá þessu en Samkeppniseftirlitið hefur staðfest þetta við vefmiðilinn.

Samkvæmt heimildum Kjarnans var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins send með bréfi í morgun. Undanþáguheimildin varðar bann við samruna fyrirtækja á meðan hann er til umfjöllunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Þá segir í frétt Kjarnans að rannsókn eftirlitsins á samrunanum gangi vel og að afgreiðslu sé að vænta innan skamms. Ekert óvænt hafi komið upp í þeirri vinnu.