Sigurður G. Guðjónsson Hæstaréttarlögmaður hefur keypt allar eignir Pressunar ehf, að héraðsfréttablöðunum sem fjölmiðlafyrirtækið hefur gefið út undanskildum. Fjölmiðlar Pressunar eru meðal annars Vefpressan, DV og Eyjan, en Björn Ingi Hrafnsson er útgefandi. Félög í eigu Björns Inga og Arnars Ægissonar framkvæmdastjóra Pressunar eiga samanlagt um 31% hlut í Pressunni.

Kaupin eru gegn greiðslu og yfirtöku á skuldum Pressunar við Tollstjórann og hluta af lánardrottnum fyrirtækisins, samtals að fjárhæð tæplega 400 milljónir að því er Fréttablaðið greinir frá. Í gærmorgun var tekin fyrir gjaldþrotaskiptabeiðni Tollstjóra á hendur Pressunni í Héraðsdómi Reykjavíkur, en hún var afturkölluð sama dag eftir að Sigurður greiddi að fullu upp skuld félagsins við Tollstjórans vegna opinberra gjalda.

Ef það hefði ekki verið gert hefði Pressan verið tekin til gjaldþrotaskipta og skiptastjóri skipaður yfir félaginu í dag. Eigendur á 66% hlut í Pressunni er Eignarhaldsfélagið Dalurinn, sem er í eigu Árna Harðarsonar, Halldórs Kristmannssonar, Hilmars Þórs Kristinssonar, Jóhanns G. Jóhannssonar og Róberts Wessmann, allir með jafnstóran hlut.