Héraðspresturinn í Suðurprófastsdæmi og annar eigenda fjarskiptafyrirtækisins Ábótans, Axel Árnason, stendur í deilum við Skeiða- og Gnúpverjahrepp vegna lagningar nýs ljósleiðara um sveitarfélagið. Eigendur Ábótans vilja nú 87 milljónir króna frá sveitarfélaginu og er það ýtrasta krafa sem tekur mið af því að fyrirtækið hætti rekstri. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

"Það eru tapaðar tekjur til fjögurra ára inni í þeirri tölu. Við viljum fá bætt það sem við höfum fjárfest en látum þá liggja á milli hluta hvort ljósleiðaralagningin um sveitarfélagið sé ólögleg eða ekki," útskýrir Axel og segir að verði ekki orðið við kröfunni muni félagið kæra málið til Eftirlitsstofnunar EFTA. "Það er skýlaust að sveitarfélagið er að fara inn á markað með opinbert fé og það er bara ekki leyft í dag."

Gunnar Örn Marteinsson oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps segir kröfu Ábótans fráleita. Hreppurinn sé í fullum rétti og bótakrafan algerlega órökstudd. Áður höfðu eigendur Ábótans krafist þess að Skeiða- og Gnúpverjahreppur greiddi fyrirtækinu 20 milljónir króna. Því var hafnað af sveitastjórninni að fengnu lögfræðiáliti.

Áætlaður kostnaður við ljósleiðarann er 180 milljónir króna en öllum verður heimilaðar aðgangur að ljósleiðaranum. "Við hér búum við erfið skilyrði í þessum efnum. Þetta verður eins og að fara úr Trabant í Bens og auðveldar fólki störf í fjarvinnslu. Þetta er nútíminn," segir oddvitinn.