Fyrsta A321neo Airbus flugvélin var afhent Primera Air við hátíðlega athöfn í Hamborg í Þýskalandi í vikubyrjun og hóf samstundis áætlunarflug með flugi til Kaupmannahafnar og Billund í Danmörku. Því næst fer flugvélin til Bretlands þaðan sem hún mun hefja flug til New York og Boston í Bandaríkjunum og Toronto í Kanada.

Þessi fyrsta af þremur A321neo flugvélum sem Primera Air fær á þessu ári er leigð af GECAS og fimm aðrar flugvélar verða leigðar af öðrum aðilum, þar af tvær A321LR. Primera Air verður fyrsta flugfélagið til að taka þær vélar í notkun, en þær eru enn langdrægari útgáfa af Airbus A321neo.  Nýja Airbus A321neo flugvélin er knúin af CFM Leap-1A vélum sem hafa flugdrægni upp á 4.000 nm og verður boðið upp á 16 Premium flugsæti og 182 Economy flugsæti. Airbus A321LR, sem Primera  Air fær afhentar síðar á árinu, fór nýlega í jómfrúarflug sitt og tilkynnti Airbus að flugdrægni þeirrar tegundar væri 4.750 nm.

Líkt og áður hefur verið tilkynnt um, hefur Primera Air opnað nýjar starfsstöðvar í Birmingham (BHX), London, Stansted (STN) og París, Charles de Gaulle (CDG) til að hefja flug til New York, Boston, Washington DC og Toronto strax í þessum mánuði ásamt nýjum flugleiðum frá Bretlandi til Malaga, Palma de Mallorca, Alicante, Barcelona og Chania. Primera Air áformar innan næstu tveggja ára að styrkja stöðu sína á núverandi áfangastöðum og bæta við bæði nýjum flugferðum yfir Atlantshafið og nýjum áfangastöðum í N-Ameríku þar sem flugfélagið er með 20 nýjar Boeing MAX9-ER í pöntun