Flugfélagið Primera hefur gengið frá leigu á tveimur vélum til viðbótar við flota sinn og er félagið þá komið með sex vélar í rekstur.

Að sögn Jóns Karls Ólafssonar, forstjóra Primera, er það stefna félagsins að vera með 10 til 12 vélar í rekstri og er ætlunin að ná því á næstu tveimur árum.

„Sem betur fer er ekki komin sama eftirspurnartregða í Skandinavíu og við sjáum hér,“ sagði Jón Karl. Vélarnar sem um ræðir eru af gerðinni 737-700 og 735-800.

Primera á ekki vélarnar sjálft heldur er um að ræða langtíma rekstrarleigu. Félagið leigir vélarnar í þurrleigu og er því með eigin áhöfn.

Primera er með höfuðstöðvar á Íslandi en starfsemi þess fer að mestu fram erlendis, aðallega á Írlandi og í Skandinavíu.