*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 26. júlí 2017 15:15

Primera býður fargjaldið á 99 dali

Primera Air, sem er í eigu Andra Más Ingólfssonar, hyggst bjóða flugferðir milli Bandaríkjanna og Evrópu á um 10 þúsund krónur.

Ritstjórn

Danska flugfélagið Primera Air, í eigu Andra Más Ingólfssonar, hyggst bjóða flugfargjöld frá Bandaríkjunum til Evrópu, og aftur til baka, á 99 Bandaríkjadali, sem samsvarar um 10.400 íslenskum krónum. Samkvæmt frétt Business Insider mun félagið byrja að bjóða upp á ferðirnar í maí á næsta ári.

Í Bandaríkjunum er flogið frá Logan flugvelli í Boston og Newark flugvelli en áfangastaðirnir í Evrópu eru í Bretlandi annars vegar, þá Birmingham og Stansted flugvöllur í Lundúnum, Bretlandi og hins vegar til Charles de Gaullu flugvallarins í París í Frakklandi. Verður flogið daglega frá Newark, en fjórum sinnum í viku frá Boston.

Þó er sá hængur á þessu ódýra verði að farþegum verður einungis heimilt að hafa með sér einn handfarangur, sem má ekki vega meira en 10 kíló. Hins vegar geta farþegar borgað aukalega til að geta haft með sér farangur og önnur aukaleg þægindi, en fréttin fullyrðir þó að verðin séu þrátt fyrir það mun lægri en hjá flestum öðrum fyrirtækjum.