Sókn flugfélagsins Primera Air inn á breska markaðinn hefur ekki gengið snuðrulaust fyrir sig. Þetta kemur fram í frétt á vef Túrista . Fyrr á árinu dróg flugfélagið verulega úr Ameríkuflugi sínu frá Birmingham og í dag berast þau tíðindi að Primera Air hafi fellt niður allt flug frá bresku borginni til Mallorca og Barcelona í byrjun næsta mánaðar.

Í lok október leggjast svo af allar ferðir frá Birmingham til  Alicante, Las Palmas, Malaga og Tenerife. Auk þess verður ekkert úr áætlunum um flug milli Íslands og Birmingham í vetur. Frá Stansted flugvelli við London hafa ferðir til Malaga og Alicante verið felldar niður að hluta til.

Haft er eftir talsmanni Birmingham flugvallar, í frétt Independent, að ákvörðun forsvarsmanna Primera Air valdi vonbrigðum þar sem eftirspurn eftir þessum flugleiðum hafi verið mikil. Í tilkynningu frá flugfélaginu kemur fram að farþegar fái bætur í samræmi við evrópskar reglur.

Í frétt breska blaðsins er talað um Primera Air sem íslenskt/lettneskt flugfélag jafnvel þó það sé ekki með íslenskt flugrekstrarleyfi. Íslenska tengingin er þó sterk því Primera Travel Group, móðurfélag Primera Air, er alfarið í eigu Andra Más Ingólfssonar.