Starfsemi ferðaskrifstofusamstæðunnar Primera Travel Group hefur dregist verulega saman á Íslandi. Að sögn Andra Más Ingólfssonar, framkvæmdastjóra og eiganda Primera, lætur nú nærri að um 3% af starfseminni sé á Íslandi en var á milli 5 og 6% á síðasta ári.

Að sögn Andra Más hefur fyrirtækið lagt áherslu á að minnka framboð sitt á Íslandi í samræmi við þann veruleika sem við er að eiga hér. Þannig hefur framboð Heimsferða verið minnkað um ríflega 60%. ,,Við gerðum þetta strax í október en þá færðum við starfsemina niður og erum að njóta þess núna þar sem við erum ekki með tap af rekstrinum þrátt fyrir ömurlegt árferði,“ sagði Andri.

Rekstur Terra Nova gengur vel

Hann sagði að rekstur Terra Nova gengi mjög vel en þar njóta þeir krónunnar en félagið flytur erlenda farþega til Íslands. ,,Við höfum verið að trimma Ísland niður á meðan starfsemi okkar erlendis hefur vaxið.“

Primera Air flugfélagið er í eigu Primera Travel Group og hefuir öll starfsemi verið flutt út þótt fyrirtækið sé rekið frá Íslandi og verður það áfram. Að sögn Andra er Primera Air nú með sex flugvélar í rekstri. Félagið hefur verið að bæta við vélum og sagðist Andri telja að það væri í réttri stærð núna. Primera Air sinnir um það bil helmingi af flugþörf samstæðunnar en  Andri sagði að til að ná sveigjanleika keypti félagið um það bil helming af því sætaframboði sem það þarf annars staðar frá. Primera Air mun að sögn Andra fljúga um 50% af flugi Primera á næta ári.

Seldum okkur út úr framvirkum samnigum

,,Við njótum þess núna að hafa brugðist hratt við. Við seldum okkur út úr öllum framvirkum samningum á eldsneyti þannig að við erum að fá alla lækkunina til okkar og það eru gríðarlega háar fjárhæðir. Þar er hluti skýringarinnar á því af hverju okkur er að ganga vel í ár en það er vegna hagnaðar sem kemur fluguppgjörið í dag. Það má segja að flugfélagið sé komið í það form sem það á að vera í. Svo sjáum við til hvenær við bætum við vélum, það verður um leið og markaðsaðstæður leyfa.“

Að sögn Andra er hagnaður af öllum rekstrareiningum samstæðunnar, það væri helst að hægt væri að setja spurningamerki við Írland. ,,Við erum komnir með góða sýn út árið. Þegar komið er fram í júní veistu meira og minna hvernig restin verður nema einhver stóráföll verði en þau komu öll í fyrra en eigi að síður skiluðum við góðum hagnaði þá.“

Primera Air flugfélagið er í eigu Primera Travel Group sem er móðurfélag Heimsferða. Innan Primera Travel Group eru einnig Terra Nova auk ferðaskrifstofanna Solresor í Svíþjóð, Bravo Tours í Danmörku, Solia í Noregi, Matkavekka og Lomamatkaat í Finnlandi auk Budget Travel á Írlandi. Primera Air mun annast nær allt leiguflug fyrir öll fyrirtæki innan Primera Travel Group á næsta ári.