Primera Travel Group hefur samið við Loftleiðir Icelandic, dótturfélag Icelandair Group, um leigu á fyrstu breiðþotunni fyrir Primera Air, sem annast allt flug fyrir Primera, Heimsferðir og fyrirtæki þeirra á Norðurlöndunum.

Í fréttatilkynningu kemur fram að samningurinn nær yfir leigu á Boeing 767-300 breiðþotu sem mönnuð verður íslenskum áhöfnum, en jafnframt mun Loftleiðir Icelandic sjá um viðhald og tryggingar. Samningurinn er til 6 mánaða og hefst þann 1. nóvember næstkomandi.

Vélin verður staðsett í Stokkhólmi og mun annast flug fyrir Solresor í Svíþjóð, Bravo Tours í Danmörku og Solia í Noregi til Thailands og annarra fjarlægra áfangastaða. Tugþúsundir ferðamanna fara á vegum ferðaskrifstofanna til Austurlanda á hverju ári og hefur mikill vöxtur verið í þessum ferðalögum. Til að mæta aukningunni þykir nauðsynlegt að geta boðið uppá beint leiguflug.

Í þessari fyrstu vetraráætlun í leiguflugi Primera Travel Group frá Stokkhólmi er gert ráð fyrir 35 þúsund farþegum. Fyrirséð er að umsvifin muni aukast enn frekar veturinn 2008 til 2009 og fyrirtækið verði þá með tvær til þrjár vélar sömu gerðar í rekstri.


Íslenska flugfélagið JetX, sem er að meirihluta í eigu Primera Travel Group, annast allt flug fyrir Primera Air. JetX verður með fjórar Boeing 737-800 þotur í rekstri á þessu ári, auk Boeing 767-300 breiðþotunnar. Þessar vélar sinna öllu flugi fyrir ferðaskrifstofur Primera Travel Group á Norðurlöndunum. Jafnframt rekur JetX þrjár MD-80 þotur, sem notaðar eru í önnur verkefni.

Primera Travel Group er móðurfélag Heimsferða. Innan Primera Travel Group eru einnig Terra Nova auk ferðaskrifstofanna Solresor í Svíþjóð, Bravo Tours í Danmörku, Solia í Noregi og Matkavekka og Lomamatkaat í Finnlandi. Flugfélagið JetX er einnig hluti af Primera Travel Group.

Árið 2006 ferðuðust 500.000 manns með ferðaskrifstofum Primera Travel Group og velta fyrirtækisins var 35 milljarðar króna. Fyrirtækið er fjórða stærsta ferðaskrifstofan á Norðurlöndum og sú stærsta í einkaeigu.