Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað norska efnafyrirtækið Primex Biochemicals AS af kröfum Primex ehf. um að það greiddi því rúmlega 63 þúsund evrur með dráttarvöxtum, ásamt því að dæma Primex ehf. til að greiða hálfa milljón króna í málskostnað.

Primex ehf. var upphaflega dótturfélag PB en selt frá því árið 2003. Snerist rekstur PB aðallega um vinnslu fæðubótarefna úr rækjuskelja­dufti sem Primex ehf. framleiddi sem og að selja efnið áfram til annarra landa.  Í málinu deildu aðilar um hvort reikningar Primex ehf. á hendur PB vegna kaupa þess síðarnefnda á hráefni frá Primex ehf. hefðu verið uppgerðir með skuldajöfnuði. Var niðurstaðan sú að PB var sýknaður af kröfum Primex. Þá var deilt um hvort krafa Primex ehf. á hendur PB vegna reiknings sem PB hafði fyrir mistök verið greitt á sínum tíma í stað Primex ehf. væri fyrnd, og var niðurstaða dómsins sú að krafan væri fyrnd.