Frá og með morgundeginum munu lög tónlistarmannsins fræga Prince, sem lést í apríl sl., verða aðgengileg á tónlistarveitunni Spotify. Þetta staðfesti fyrirtækið á í gær eftir margra mánaða sögusagnir þess efnis. Tónlist hans mun einnig verða aðgengileg á öðrum tónlistarveitum á borð við Apple Music, Napster, iHeartRadio and Amazon Music.

Spotify hafði áður ýtt undir sögusagnirnar þess efnis með fjólublárri auglýsingaskilta-herferð víðsvegar um New York og London.

Prince heitinn skyldi eftir mikið magn af óútgefinni tónlist þegar hann lést sem áætlað er að sé um tugi milljóna dollara virði. Universal Music Group tilkynnti á þriðjudaginn að félagið hefði tryggt sér einkarétt á öllum verkum Prince sem gefin voru út eftir árið 1995 sem og óútgefnum verkum hans.

Frægt var hversu langt tónlistarmaðurinn gekk við að vernda verk sín á meðan hann enn lifði. Þannig sá hann til þess að tónlist hans væri ekki aðgengileg á YouTube og hafnaði samstarfi við tónlistarveitur. Hann fjarlægði alla tónlist sína af Spotify árið 2015. Eina undantekningin var tónilstarveita tónlistarmannsins Jay Z, Tidal, sem náði samningi við Prince árið 2015 sem tryggði síðunni einkarétt að plötu hans „Hit N Run: Phase One.“