Bílaleigan Procar skrifaði í dag undir samning við B&L og Ingvar Helgason um kaup á 100 bílum af gerðunum Hyundai og Nissan. Procar er með um 200 bíla í sínum flota, að því er kemur fram í tilkynningu.

Procar kaupir gerðirnar Nissan Micra, Nissan Qashqai og Hyundai i20 og i10. Segir að þeir hafi reynst einstaklega vel.

„Við erum bjartsýnir á sumarið og erum farnir að fá verulegar bókanir inn og leggjum mikið upp úr að vera tímanlega klárir með bíla og vel undirbúnir þegar törnin byrjar“ segir Gunnar Björn Gunnarsson forstjóri Procar í tilkynningu.

„Við erum bæði ánægð og stolt af því að fá tækifæri til að semja að nýju við bílaleiguna Procar með þá bíla sem þeir kaupa í ár fyrir viðskiptavini sína enda leggjum við mikið upp úr því að samningar sem þessir snúist um samvinnu til lengri tíma þar sem aðilar setja sig inn í þarfir hvers og eins og vinni saman að því að veita viðskiptavinunum góða þjónustu“ segir Rúnar H. Bridde sölustjóri Nissan í tilkynningu.