Bílaleigan Procar er hætt starfsemi samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Einhverjum viðskiptavinum hennar hefur verið beint til bílaleigunnar Átaks. Heimasíða Procar liggur niðri og sími fyrirtækisins virðist hafa verið aftengdur. Eigendur félagsins eru Haraldur Sveinn Gunnarsson og Gunnar Björn Gunnarsson.

Bílaleigan varð uppvís að miklu ökumælasvindli árið 2019 þar sem átt hafði verið við kílómetrastöðu í að minnsta kosti 100 bílum á fimm ára tímabili áður en þeir voru seldir. Bílaleigan var hins vegar ekki svipt leyfi sínu af Samgöngustofu þrátt fyrir að hafa svindlað á neytendum, þar sem Samgöngustofa taldi tillögur fyrirtækisins að úrbótum fullnægjandi. Þá var bílaleigunni vísað úr Samtökum ferðaþjónustunnar og sleit Guide to Iceland til að mynda samstarfi sínu við fyrirtækið.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2020 nam tap bílaleigunnar 118 milljónum króna og var eigið fé félagsins neikvætt um 51,3 milljónir króna í árslok 2020.

Ekki náðist í eigendur Procar við vinnslu fréttarinnar.