Hin alþjóðlega fjármálakreppa á eftir að versna og stór bandarísk fjármálastofnun mun riða til falls á næstu mánuðum.

Þetta er mat hagfræðiprófessorsins Kenneths Rogoff, sem var aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en starfar nú við Harvard-háskóla og birtast pistlar hans reglulega í helgarblaði Viðskiptablaðsins.

Á ráðstefnu í Singapúr í gær sagði hann að ástandið á fjármálamörkuðum ætti eftir að versna til muna og að á næstu mánuðum ætti annaðhvort einn af stóru bandarísku fjárfestingarbönkunum eða viðskiptabönkunum eftir að fara á hausinn.

Enn fremur lýsti Rogoff því yfir að bandarísku fasteignasjóðirnir Fannie Mae og Freddie Mac yrðu ekki til í núverandi mynd eftir nokkur ár.

Ummæli Rogoffs eru ekki út í bláinn. Margt bendir til þess að óveðurský séu enn á ný að hrannast upp yfir fjármálamörkuðum heims. Þrálátur orðrómur hefur verið uppi um það að undanförnu að bandarísk stjórnvöld komist ekki hjá því að þjóðnýta Fannie Mae og Freddie Mac.

Hlutabréf í báðum fasteignasjóðunum féllu um allt að fjórðung í byrjun vikunnar í kjölfar þess að fullyrt var í tímaritinu Barron’s að bandarísk stjórnvöld hygðust endurfjármagna sjóðina með þeim hætti að hluthafar þeirra sætu uppi með sárt ennið.

Fjármálaráðuneytið fékk heimild til þessa gjörnings í júlí og fram kemur í Barron’s að menn hafi misst trúna á það að Fannie og Freddie geti fjármagnað sig að fullu upp á eigin spýtur. Sjóðirnir standa undir helmingnum af 12 billjóna dala fasteignamarkaði Bandaríkjanna og hafa verður hugfast að seðlabankar víða um heim og alþjóðlegir fjárfestar eiga um fimmtung af öllum útistandandi skuldum þeirra.

Þar af leiðandi verður ekki áréttað nægilega oft hversu mikil áhrif rekstrarvandi þeirra hefur um heim allan, að ekki sé talað um hagkerfið í heimalandinu.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .