Lawrence Lessig, lagaprófessor við Stanford háskóla, sagði að bandarískur löggjafi þurfi að grípa til róttækra aðgerða til að vernda þau grunngildi sem hafa gert internetið jafn vel heppnað og það er. Lessig sagði þetta á málþingi um þær aðferðir sem sum netfyrirtæki nota til að stýra netumferð á háannatímum. Lessig sagði að eitt af meginsjónarmiðum sem voru til staðar við stofnun internetsins væri að öll umferð ætti að flæða um það jafnt. Hlutleysi netsins væri truflað af netfyrirtækjum sem settu hindranir á hvað viðskiptavinir þeirra gætu gert.

Málþingið var haldið að frumkvæði yfirvalda, eftir að upp komst að netfyrirtækið Comcast hefði hindrað suma viðskiptavini sína í því að deila skrám gegn um BitTorrent-kerfi. Viðskiptavinir fengu ekki að vita að þetta væri gert. Rannsókn stendur nú yfir á því hvort Comcast hafi brotið lög með þessu athæfi.

Í Bretlandi stýra mörg netfyrirtæki umferð á háannatímum, kemur fram í frétt BBC, til að tryggja að allir fái mestu mögulegu bandvídd.

Kevin Martin, formaður þingnefndar sem fjallar um málið, sagði að það væri ekkert athugavert við það að netfyrirtæki stýrðu netumferð viðskiptavina sinna, svo lengi sem þeir væru að fullu upplýstir um það. Aðalmálið væri að viðskiptavinir þekktu þá skilmála sem fylgdu viðskiptum við fyrirtækin.