Í tilefni af því að 120 ár eru liðin frá fæðingu Jónasar frá Hriflu höfur orðið að samkomulagi að stofnuð verði við Viðskiptaháskólann á Bifröst staða prófessors í samvinnufræðum, sem kennd verði við Jónas frá Hriflu. Hefur verið undirrituð viljayfirlýsing milli Viðskiptaháskólans á Bifröst og Framsóknarflokksins um stofnun stöðunnar.

Jónas, einn merkasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar, var í senn stofnandi og fyrsti skólastjóri Samvinnuskólans, sem nú heitir Viðskiptaháskólinn á Bifröst. Þykir okkur því vel við hæfi að rannsóknar- og kennsluaðstaða verði stofnuð við skólann í hans nafni.

Markmiðið með því að setja á fót ofangreinda prófessorsstöðu verði að efla rannsóknir og vitneskju um sögulegar rætur samvinnuhugsjónarinnar, um sögu og feril samvinnustarfs á Íslandi og þann skerf sem samvinnan hefur verið í framförum og þjóðlífi, en ekki síður um það hvernig samvinnufélgasformið hefur verið að ryðja sér til rúms á ný í auknu mæli í ýmsum löndum. Þá verði rannsakað sérstaklega hvernig samvinnufélagsformið geti nýst í íslensku atvinnulífi á 21. öld. Enn fremur verði rannsakaður skerfur Jónasar Jónssonar frá Hriflu til stjórnmálaþróunar, samskipti við aðrar þjóðir, framfara, mennignar og þjóðlífs segir í tilkynningu frá skólanum

Við munum í sameiningu tryggja fjármögnun prófessorsstöðunnar til frambúðar.