Margir ráku upp stór augu á haustmánuðum 2016 þegar Bjarni Benediktsson, þáverandi og núverandi fjármálaráðherra, sagði á Alþingi að leiðin fram á við væri ekki að stórfjölga stóriðjuverum á Íslandi. „Ég sé ekki fyrir mér, til dæmis, að álverum muni fjölga á Íslandi í framtíðinni,“ sagði Bjarni í umræðum um ívilnanir til stóriðju á Alþingi.

Þáverandi iðnaðarráðherra í sömu ríkisstjórn, Ragnheiður Elín Árnadóttir, stóð fyrir breytingum á lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Ísandi árið 2015 og jafnframt lagði hún fram þingsályktun um stefnu stjórnvalda í nýfjárfestingum sem var samþykkt í mars 2016.

Þessi stefnubreytingin hefur miðað að því að byggja upp dreifðari og fjölbreyttari markað, ekki síst fyrir orkufyrirtækin. Samhliða hefur fyrirtækjum í nýsköpun og þróunarverkefnum fjölgað í atvinnulífinu. Hins vegar er mun meiri óvissa um arðsemi, skatttekjur og líftíma þessara fyrirtækja í samanburði við álverin.

Ingólfur Bender segir t.d. að mikil langtímaáhrif séu af stóriðjuframkvæmdum á þjóðarhag. „Innlendur kostnaður álveranna nam t.d. rúmum 79 milljörðum árið 2017, en hann hefur legið á bilinu 75 til 100 milljarðar á síðustu árum. Stór hluti af því eru gjaldeyristekjur sem verða eftir
í landinu og munar um minna. Áliðnaður skapar jafnframt hundruðum fyrirtækja tekjur, en kaup á vörum og þjónustu utan raforku, námu rúmum 22 milljörðum á síðasta ári. Raforkukaup álveranna námu tæpum 37 milljörðum og opinber gjöld um 3 milljörðum,“ segir Ingólfur Bender.

Tómas Már Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Alcoa, sagði í Áramótum Viðskiptablaðisins
og Frjálsrar verslun í desember að hann skilji stefnubreytingu síðustu ára en hann setur líka
við hana fyrirvara. „Menn verða að gera sér grein fyrir því að því fylgir önnur áhætta. Landsvirkjun hefur í gegnum tíðina byggst upp á því að hafa verulega sterka mótaðila sem skuldbinda sig til að kaupa orkuna í langan tíma hvort sem hún er notuð eða ekki. Hvort sem það eru Rio Tinto í Straumsvík, Alcoa á Reyðarfirði, Century Aluminum eða Elkem upp á Grundartanga. Þetta eru traustir aðilar sem standa í skilum og í dag stendur fyrirtækið mjög sterkt. Því má segja að það [Landsvirkjun] sé í stakk búið til að þróa annars konar og smærri verkefni en um leið er hugsanlega að taka meiri áhættu. Það sýndi sig til dæmis með kísilverkefninu í Helguvík. Þar var reynt að taka áhættu með ömurlegum afleiðingum, ekki bara fyrir Landsvirkjun, lífeyrissjóðina, banka heldur alla aðra því að orðspor orkufreks iðnaðar hefur skaðast,“ segir Tómas.

Fjölmörg lítil og áhugaverð fyrirtæki sem orðið hafa að veruleika á undanförnum árum eru til marks um góðan árangur af kynningarstarfi Íslandsstofu og stefnubreytingu stjórnvalda og Landsvirkjunar. Hins vegar hefur árangurinn og vöxturinn að undanförnu verið á miklu góðærisskeiði og nú þegar flestir hagvísar benda til þess að hagkerfið kólni hratt má segja að raunverulegur prófsteinn á stefnuna sé enn framundan.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .