Áform alþjóðafyrirtækisins Ernst & Young (EY) að aðskilja endurskoðunar- og ráðgjafarhluta starfseminnar, sem síðar var fallið frá, var ekki ráðandi þáttur í ákvörðun EY á Íslandi að ganga til samrunaviðræðna við Deloitte að sögn Guðjóns Norðfjörð, forstjóra EY á Íslandi.

„Það ýtti okkur ekki út í þessar viðræður allaveganna. Það er samt sem áður þannig að þegar farið er í svona vegferð þá þarf að taka marga hluti inn í myndina. Svo viljum við líka getað hugsað út fyrir boxið og skoðað ýmsa möguleika í kringum okkur.“

Á síðasta ári ákvað alþjóðafyrirtækið Ernst & Young að hefja undirbúning að aðskilnaði á endurskoðunar- og ráðgjafarhluta starfseminnar. Til stóð að selja eða skrá ráðgjafarhlutann á markað. Verkefnið, sem fékk nafnið Project Everest, var lýst sem einni stærstu breytingu síðustu ára í endurskoðunariðnaðinum.

Í apríl síðastliðnum var hins vegar greint frá því að áformin hefuð verið sett á ís eftir innbyrðis deilur og mótstöðu frá stjórnendum bandaríska aðildarfyrirtækis EY.

Nánar er fjallað um fyrirhugaðan samruna EY og Deloitte á Íslandi í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.