Promennt og Fortinet hafa gert samstarfsamning sín á milli um kennslu nýrrar námsbrautar í netöryggi en námsbrautin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Promennt býður upp á fjölbreytt úrval námskeiða í ýmsum greinum og er leiðandi á því sviði. Fortinet er leiðandi framleiðandi á netöryggisbúnaði og hugbúnaðarlausnum á heimsvísu.

Markmið námsbrautarinnar er að mæta þeirri þörf sem skapast hefur á síðustu árum eftir sérfræðingum í netöryggismálum.

Netárásir á fyrirtæki og stofnanir eru allt of algengar út um allan heim og því er þörfin mikil á að fjölga sérfræðingum í atvinnugreininni, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Guðmundur Pálmason, framkvæmdastjóri Promennt:

„Við erum afar stolt af því að ná að svara kalli markaðsins eftir fleiri sérfræðingum á sviði netöryggis. Við sjáum fyrir okkur að þetta nám muni verða eftirsótt, bæði af þeim sem nú þegar hafa reynslu í upplýsingatækni en vilja sérhæfa í þessum hluta en einnig af þeim sem vilja byggja sig upp frá grunni sem sérfræðingar í netöryggi.“

Sævar Haukdal, sölustjóri Fortinet á Íslandi:

„Við erum gríðarlega ánægð að sjá Promennt fara af stað með braut tileinkaðri þeirri mikilvægu þörf að búa til fleiri sérfræðinga á sviði netöryggis. Við hjá Fortinet finnum að fyrirtæki og stofnanir hér á landi vilja gera vel í þeim efnum og því er þörfin fyrir slíka sérfæðinga mikil. Fortinet leggur mikla áherslu á almenna þjálfun á þessu sviði og er í samstarfi við menntastofnanir um allan heim. Nú bjóðum við Promennt velkomin í þann hóp.“