Í gær var tekin í notkun stækkuð verksmiðja hverfisteypufyrirtækisins Promens Dalvík. Með tilkomu 840 fermetra viðbyggingar og þriðja hverfisteypuofnsins eykst framleiðslugeta verksmiðjunnar um 60%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Promens en þar segir að nýi hverfisteypuofninn sé einnig einstakur á heimsvísu því þetta sé í fyrsta sinn sem ofn af þessari stærð er knúinn rafmagni í stað olíu- eða gasbrennara.

Nýi ofninn er keyrður í 400 gráðu hita en auk tæknibyltingarinnar með ofninum er í nýja húsinu öflugt blásturskerfi til kælingar á steypumótunum eftir að þau koma út úr ofninum.

Framkvæmdir við bygginguna hófust í árslok 2011. Arkitekt hússins er Bjarni Reykjalín á Akureyri, Verkfræðiskrifstofa Norðurlands annaðist byggingafræðilega útreikninga, Raftákn hf. á Akureyri hafði með höndum rafhönnun en aðalverktaki var Tréverk á Dalvík.

Þá kemur fram að heildarfjárfesting í nýja verksmiðjuhúsinu og búnaði er um 270 milljónir króna og kom Landsbanki Íslands að fjármögnun verkefnisins.