Promens hefur gert samning um víðtæka eignatryggingavernd við Sjóvá og breska tryggingafélagið Royal & SunAlliance vegna starfsemi fyrirtækisins bæði innanlands og erlendis, segir í fréttatilkynningu. Virði samningsins var ekki gefið upp.

Promens segir starfsemi sína dreifða um allan heim og sér fyrirtækið því mikin hag í að geta skipt við einn aðila án tillits til staðsetningar. Þetta felur því í sér mikla einföldun á samskiptum sem og samræmingu á því tryggingaumhverfi sem einingar samstæðunnar búa við.

Með samstarfinu við Royal & SunAlliance er Sjóvá unnt, fyrst allra tryggingafélaga á Íslandi, að veita íslenskum alþjóðafyrirtækjum heildstæða eignatryggingavernd. Þjónustunet Sjóvá og Royal & SunAlliance nær til 133 landa og veitir þannig Promens aðgang að þjónustu samstarfsaðila félagsins í því landi sem starfsemin fer fram.

Promens er leiðandi fyrirtæki í plastframleiðslu í heiminum með yfir 60 verksmiðjur í Evrópu, Norður Ameríku og Asíu. Promens veltir um 710 milljónum Evra á ári og heildar fjöldi starfsmanna er um 5500. Helstu eigendur Promens eru fjárfestingafélagið Atorka Group hf. og Landsbankinn hf.