Promens, félag í eigu Atorku Group, hefur gengið frá samningum um kaup á öllu hlutafé í Elkhart Plastics, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Elkhart Plastics rekur fjórar hverfisteypuverksmiðjur í Bandaríkjunum. Heildarkaupverð félagsins er um 45 milljónir dala, eða um 3.360 milljónir króna. Kaupin eru fjármögnuð bæði með eigin fé og lánsfé.

?Elkhart Plastics hefur verið í mjög góðum rekstri síðustu ár og vaxið um 25% á ári síðustu árin, bæði með innri og ytri vexti. Félagið starfar á markaði með góða vaxtarmöguleika og kaupin fela í sér mikil tækifæri fyrir starfsemi Promens í Norður Ameríku," segir Ragnhildur Geirsdóttir forstjóri Promens í tilkynningunni.

Umsvif Promens í Norður-Ameríku tvöfaldast

Með kaupunum tvöfaldast umsvif Promens í Norður-Ameríku og verður heildarvelta starfseminnar þar um 100 milljónir dala á árinu 2006, eða um 7,5 milljarðar króna.

Eftir kaupin á Elkhart Plastics og Bonar Plastics síðastliðið haust er velta samstæðunnar yfir 16 milljarðar íslenskra króna á ársgrundvelli og hjá henni starfa um 1.600 manns.

Promens starfrækir alls 22 hverfisteypuverksmiðjur í 10 löndum Evrópu, Bandaríkjanna og Asíu.

Með kaupunum á Elkhart Plastics er Promens komið í hóp stærstu hverfisteypufyrirtækja Norður-Ameríku með yfir 700 starfsmenn í níu verksmiðjum í Bandaríkjunum og Kanada.

Jack Welter áfram forstjóri og eignast 6% í Promens

Við kaupin mun Jack Welter, forstjóri og aðaleigandi Elkhart Plastics, eignast tæplega 6% hlutafjár í Promens og verður hann áfram forstjóri félagsins.

Kaup hans á hlutum í Promens voru byggð meðal annars á verðmati sem unnið var af PWC og er vanmat á bókfærðri eign Atorkusamstæðunnar í Promens út frá gengi í þessum viðskiptum rúmir 4,9 milljarðar króna.