Jakob Sigurðsson, forstjóri Promens og fulltrúi kínverskra stjórnvalda Taicang, undirrituðu í dag fjárfestingarsamning við hátíðlega athöfn í Peking í Kína. Samningurinn staðfestir fyrirætlanir Promens um að opna verksmiðju í borginni Taicang, í Jiangsu-héraði, nálægt Sjanghæ. Fram kemur í tilkynningu frá Promens að þetta sé skrefið í átt að því að færa framleiðsluna nær viðskiptavinum Promens í Asíu og undirstrikar mikilvægi kínversks markaðar fyrir fyrirtækið. Ný framleiðslueining í Taicang mun draga úr nauðsyn þess að flytja vörur Promens um langar leiðir og skilar sér í hraðvirkari þjónustu og bættum afhendingartíma fyrir viðskiptavini fyrirtækisins.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands, var viðstödd undirritunina, ásamt Li Keqiang forsætisráðherra Kína.

Verksmiðjan í Taicang mun hefja starfsemi í nokkrum áföngum. Fyrsti áfanginn byggist á hverfisteyptum vörum svo sem einangruðum kerjum og mun til að byrja með fyrst og fremst þjónusta fyrirtæki innan matvælageirans. Undirbúningur vegna opnunar verksmiðjunnar er langt á veg kominn og er áætlað að framleiðsla hefjist fyrir lok árs 2013. Hverfisteypa hefur verið þungamiðjan í framleiðslu Promens síðan fyrirtækið var stofnað árið 1984 á Dalvík og sama tækni liggur til grundvallar starfsemi fyrirtækisins í Asíu hingað til.

Undirskriftarathöfn Promens var haldin við sama tilefni og undirritun fríverslunarsamnings Íslands og Kína. Samningurinn var sá fyrsti sem Evrópuríki undirritar við Kína.

„Opnun verksmiðju í Kína gerir okkur kleift að bæta enn frekar gæði þeirrar þjónustu sem veitt er í Asíu, efla getu okkar til að mæta eftirspurn frá alþjóðlegum viðskiptavinum fyrirtækisins og minnka umhverfisáhrif fyrirtækisins með bættum flutningum,” er haft eftir Jakobi Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Promens í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þá segir í tilkynningunni að mörg kínversk fyrirtæki eru meðal viðskiptvina Promens í Kína auk alþjóðlegra fyrirtækja sem eru með starfsemi í Kína eða stefna á að hefja framleiðslu þar. Með opnun nýrrar verksmiðju í Kína getur Promens boðið alþjóðlegum viðskiptavinum sínum sömu þjónustu í Asíu og fyrirtækið veitir þeim í Evrópu og víðar. Promens valdi staðsetninguna í nálægð við Sjanghæ þar sem svæðið hefur uppá að bjóða góðar samgönguleiðir á landi, sjó og með flugi innan Kína og utan, auk þess að vera gríðarlega áhugavert markaðssvæði eitt og sér.

Hér að neðan má sjá þegar skrifað var undir samninginn.

© Aðsend mynd (AÐSEND)