Undanfarið ár hefur verið unnið að því að koma á fót stærstu fyrirtækjasamsteypu á sviði hverfisteyptra plastvöru í heiminum, með starfsemi í Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu. Þetta er fyrirtækið Promens sem varð til við sameiningu Sæplasts og tengdra félaga og Bonar Plastics, öll félög sem eru í eigu Promens hf., sem er í 100% eigu fjárfestingafélagsins Atorku Group hf. Í Viðskiptablaðinu í dag má lesa viðtal við forstjóra félagsins, Geir A. Gunnlaugsson

Promens starfrækir 20 verksmiðjur í 12 löndum og eru starfsmenn samsteypunnar um 1300. Vörur samsteypunnar eru annars vegar eigin vörur, aðallega tankar og ker fyrir matvæla-, líftækni- og efnaiðnað, en einnig margs konar vörur og íhlutir fyrir aðra framleiðendur (custom moulding). Í viðtali Viðskiptablaðsins við forstjóra félagsins, Geir A. Gunnlaugsson, kemur fram að velta Promens á þessu ári er áætluð um 140 milljónir evra eða nálægt 10 milljörðum íslenskra króna. Framlegð fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætluð 9% á næsta ári þegar félagið verður komið að fullu í samþættan rekstur eftir þær miklu breytingar sem orðið hafa á því undanfarið.