„Við stefnum á að opna á næstu vikum,“ segir Stefán Jóhannsson, gæðastjóri hjá Subway, um nýjan Subway stað sem til stendur að opna í Bankastrætinu. Þar var áður pizzastaðurinn Pronto sem samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins leitar nú að nýju húsnæði. Þó einhverjir fastagesta Bankastrætisins sjái sjálfsagt eftir pizzunum geta aðdáendur Subway fagnað því að hafa endurheimt kafbátana í miðborgina.

Stefán segir það hafa staðið til að opna nýjan stað í miðborginni frá því að gamla Subway staðnum í Austurstrætinu var lokað fyrir nokkrum árum. Hann bætir því við að næturgestir svæðisins þurfi ekki að örvænta. „Við stefnum á að vera með einhverja nætursölu um helgar,“ segir hann. Svo virðist því sem Hlöllabátar og Nonnabiti megi búa sig undir nýjan keppnaut á brauðbátamarkaði miðbæjarins.