*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 20. nóvember 2013 20:56

SA frumsýnir auglýsingu um skaðsemi verðbólgunnar

Samtök atvinnulífsins frumsýndu nýja auglýsingu eftir Kastljós í kvöld þar sem hagsmunir launafólks voru settir í samhengi.

Ritstjórn

Skaðsemi verðbólgunnar er meginefni nýrrar auglýsingar Samtaka atvinnulífsins, sem frumsýnd var í kvöld. Í auglýsingunni er útskýrt hversu skaðleg verðbólgan getur verið fyrir almenning, sem hafa verið skilaboð SA í kjarasamningsviðræðunum. Bent er á að hófleg launahækkun feli í sér meiri ávinning fyrir launafólk til lengri tíma litið.

Samtök atvinnulífsins segja laun hafa hækkað hér á landi talsvert meira en í nágrannalöndunum. Það hafi hins vegar engu skilað þar sem verðbólga hafi étið upp ávinninginn og leitt til þess að kaupmáttur hér er álíka mikill og árið 2006. SA hafa talað gegn því að laun hækki um of í komandi kjarasamningum og bent á að laun hafi almennt hækkað um 2% þar á meðan krafist er 5-6% launahækkunar hér.

Í auglýsingunni er notast er við svokallaða infografík, teiknaðar myndir sem breytast í takt við lesin skilaboð. Sú tækni hefur verið notuð þegar koma þarf flóknum og jafnvel óáhugaverðum skilaboðum á framfæri á skjótan og einfaldan hátt. 

Auglýsingu SA má sjá hér að neðan.