Íslenska skipasmíðastöðin Rafnar ehf. hefur í áratug unnið að þróun, hönnun og smíði á bátum. Bátarnir hafa vakið mikla athygli, enda þykir hönnun þeirra byltingarkennd.

Báturinn Embla, sem er af tegundinni Leiftur 1100, sigldi í fyrra frá Íslandi til Gautaborgar á bátasýningu. Sami bátur var í febrúar fluttur á Miami Boat Show, en nú er honum prufusiglt í Karíbahafinu.

Samkvæmt talsmönnum félagsins mun Embla svo verða flutt til Norfolk í Bandaríkjunum, en þar verður henni prufusiglt af fulltrúum bandaríska hersins og bandarísku landhelgisgæslunnar.

Landhelgisgæslan íslenska, hefur frá árinu 2011 unnið náið með félaginu í sambandi við vöruþróun, en hún tók einnig við strandgæslubát árið 2015 sem hefur reynst vel.

Össur Kristinsson, stofnandi Össurar hf., stofnaði Rafnar ehf. fyrir rétt rúmum áratug, en fyrirtækið hefur stækkað umtalsvert á síðustu árum.

Það sem einkennir skrokka bátanna, er symmetrískur kjölur, sem tryggir það að engin bógalda myndast. Í stað bógöldunnar, myndast þrýstingur í vatninu, sem heldur bátunum á plani um leið og þeir leggja af stað.