Franski bílaframleiðandinn PSA sem framleiða meðal annars Peugeot og Citreon hafa keypt Evrópueiningu General Motors, sem framleiða bæði Vauxhall og Opel. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Kaupin eru metin á 1,9 milljarða evra eða því sem jafngildir 215,5 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. GM Europe hefur ekki skilað hagnaði frá árinu 1999. Með sameiningunni er PSA Group annar stærsti bílaframleiðandi Evrópu á eftir Volkswagen.

Í tilkynningu frá PSA sem hægt er að lesa hér , er haft eftir Carlos Tavares forstjóra fyrirtækisins, að þau hjá fyrirtækinu séu handviss um að afkoma Opel/Vauxhall komi til með að batna allverulega, með stuðningi fyrirtækisins.

Gert er ráð fyrir því að fyrirtækið ráðist í talsverðar hagræðingaaðgerðir og spari 1,47 milljarða á ári til ársins 2026.