Breska pundið hefur nú aldrei verið veikara gagnvart evru, en þetta kemur fram í frétt BBC. Versnandi horfur í breska hagkerfinu setja þrýsting á pundið til veikingar.

Að sögn BBC hefur lækkandi fasteignaverð og tölur sem sýna að íbúðaeigendur velja að endurgreiða íbúðalán frekar en að eyða peningum í aðra hluti, ollið því að pundið fellur meira.

Þá segir í fréttinni að lítil velta á gjaldeyrismörkuðum stuðli að því sama og leiki hlutverk í veiku pundi, en pundið stendur nú í 1,029 evrum.

Hometrack, sem er greinandi á íbúðamarkaði í Bretlandi, spáir 12% lækkun húsnæðisverðs þar í landi árið 2009. Samkvæmt Englandsbanka eyddu íbúðaeigendur 5,7 milljörðum punda í að greiða niður lán sín á þriðja fjórðungi ársins.

Í lok októbermánaðar stóð pundið í 1,287 evrum og hefur farið lækkandi síðan þá.

Á þessum tíma fyrir ári síðan stóð pundið í 1,5 evrum og þegar það var sterkast var það 1,7 evrur.