Veiking sterlingspundsins í síðustu viku getur hugsanlega gert það að verkum að kauptækifæri myndist á gjaldeyrismörkuðum í þessari viku. Ástæða þessa er meðal annars að væntingar markaðarins til þróunar stýrivaxta á Bretlandi hafa breyst og útlit er fyrir að verðbólguþrýstingur í hagkerfinu muni ná hámarki fyrr en margir ætluðu. Hinsvegar getur verið að veikingin hafi verið of mikil og að markaðurinn vanmeti líkurnar á frekari vaxtahækkunum á næstu misserum.

Stjórnendur Englandsbanka gáfu til kynna að þeir telja verðbólgu vera viðráðanlega þegar þeir ákváðu að halda vöxtum óbreyttum í síðustu viku. Á sama tíma tilkynnti Centrica, sem á orkufyrirtækið British Gas, að verð á gasi verði lækkað þann 12. mars um 11% og verð á rafmagni um 17%. Verðlækkunin var mun meiri en gert hafði verið ráð fyrir og er búist við að önnur orkufyrirtæki fylgi í kjölfarið og lækki verð. Þetta varð til þess að pundið tók að veikjast enda um ótvíræðar vísbendingar um minni verðbólguþrýsting og þar af leiðandi minni líkur á hækkun stýrivaxta. Tölur um að óhagstæður viðskiptajöfnuðu færi vaxandi grófu frekar undan pundinu á gjaldeyrismörkuðum.

Þrátt fyrir þetta telja sumir sérfræðingar á gjaldeyrismarkaði að pundið hafi veikst of mikið í síðustu viku og hugsanlegt er að hagtölur sem verða gefnar út í þessari viku sýni fram á að hann sé úr sögunni. Á miðvikudag birtist skýrsla um ástand á vinnumarkaði en gert er ráð fyrir að hún sýni fram á að laun fari hækkandi á sama tíma og atvinnuleysi haldist stöðugt. Gert er ráð fyrir að verðbólgumælingar muni sýna að þrátt fyrir að vísitala neysluverðs hafi fallið um 0.1 prósent milli mánaða hafi smásöluverð hækkað um jafn mikið.

Annar þáttur sem kann að styrkja pundið í vikunni er að fjármálaráðherrar átta helstu iðnríkja heims fjölluðu ekki um stöðu jensins og ekki þykir líklegt að til samhæfðra aðgerða verði gripið til að draga úr vaxtamunsviðskiptum í alþjóðahagkerfinu - en fjármagnsinnstreymi til Bretlands hefur haft áhrif á styrk pundsins.