Gengi sterlingspundsins féll gagnvart evru í gær í kjölfar ummæla Mervyn King, bankastjóra Englandsbanka, um að hugsanlega hefðu stýrivextir á Bretlandi náð hámarki í núverandi vaxtahækkunarferli. Gengi pundsins hefur ekki verið lægra gagnvart evru í fjóra mánuði.

Í yfirlýsingu sinni til breska þingsins ýjaði hann að því að Englandsbanki myndi bíða og sjá hver framvindan á mörkuðum yrði áður en teknar yrðu ákvarðanir um stýrivexti. Hann sagði bankinn myndi aðeins lækka vexti ef einsýnt væri að lausafjárþurrðin á fjármálamörkuðum í kjölfar hrunsins á markaðnum með bandarísk undirmálslán væri að skaða raunhagkerfið.

Haft er eftir sérfræðingum í breska blaðinu Financial Times að yfirlýsing King gefi til kynna að væntingar um að Englandsbanki myndi þurfa hækka vexti í sex prósent eigi ekki lengur við þar sem að óvissa er um áhrif núverandi ástands á mörkuðum á breska hagkerfið. Blaðið hefur eftir Kamal Sharma, gjaldeyrissérfræðingi hjá Bank of America, að titringurinn á mörkuðum hafi sérstaklega mikil áhrif á breska hagkerfið sökum mikilvægis fjármálageirans fyrir hagkerfið. Sharma segir fjármálageirann standa fyrir tíu prósentum af þjóðarframleiðslu en mikilvægið sé enn meira sé tekið tillit til margfeldisáhrifa hans - þá sé talan nærri fjörutíu prósentum. Sharma segist telja að sterlingspundið sé mun veikara fyrir hræringunum á mörkuðum en aðrar evrópskar myntir.