Breska pundið veiktist í gær fyrir ræðu Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, þar sem að hún kemur til með að útleggja áform Breta varðandi útgöngu landsins úr Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Sterlingspundið var metið á 1,20 dollara í gær en styrktist aftur í morgun. Pundið veiktist einnig talsvert gagnvart evrunni og veiktist um 1% á Asíumörkuðum.

Greiningaraðilar reikna með því að Theresa May noti tækifærið og tali um „hart Brexit“ eða harkalegri útgönguleiðina fyrir Breta. Pundið hefur veikst um 20 prósentustig gagnvart dollaranum frá því í júní. Breytingarnar á gengi gjaldmiðilsins eru taldar vera vegna óvissu um útgöngu Breta úr sambandinu.