Sterlingspundið náði sínu lægsta gengi gagnvart Bandaríkjadollaranum í meira en fimmtíu ár í og ávöxtunarkrafa á breskum ríkisskuldabréfum tók stökk í morgun. Pundið hefur aldrei verið veikara frá því að skildingar (e. shillings) voru lagðir niður og upphæðir breyttar í tugakerfi. Financial Times greinir frá.

Pundið veiktist um 4,7% þegar mest lét og gengi gjaldmiðilsins fór niður í 1,035 dollara en náði síðar jafnvægi í 1,07 dollurum. Gengi pundsins gagnvart krónunni stendur nú í 155,2 krónum og hefur ekki verið lægra frá árinu 2019.

Veiking pundsins er rakin til áforma ríkisstjórnar Liz Truss um 45 milljarða punda skattalækkanir og aðgerðum á raforkumarkaði sem fjármálaráðherrann Kwasi Kwarteng kynnti á föstudaginn síðasta. Ríkisstjórnin hyggst fjármagna aðgerðirnar að stórum hluta með lántöku.

Sjá einnig: Englandsbanki hækkar vexti

Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, hækkaði stýrivexti um hálfa prósentu í síðustu viku, upp í 2,25%. Fjárfestar vænta nú í auknum mæli að Englandsbanki neyðist til að hækka vexti fyrir næstu boðuðu vaxtaákvörðun í nóvember til að koma jafnvægi á gengi gjaldmiðilsins.