Sterlingspundið, gjaldmiðill Bretlands, hefur styrkst umtalsvert á síðustu dögum. Á föstudag hækkaði það um 1,1% móti Bandaríkjadal, og í dag hefur það hækkað um 1,8%. Gengisstyrkingin helst í hendur við það, að skoðanakannanir gerðar meðal Breta benda til þess að þeir kjósendur sem vilja að Bretland haldist í Evrópusambandinu séu fleiri en áður. Á einum tímapunkti var hækkunin um það bil 2,2% sem er mesta dagshækkun síðan árið 2008.

Kosið verður eftir þrjá daga, þann 23. júní, um hvort Bretland muni segja sig úr Evrópusambandinu eða halda aðild sinni áfram. Skoðanakannanir hafa verið gerðar með reglulegu millibili síðustu misserin og gjaldeyrismarkaðurinn hefur sveiflast nokkuð í takt við niðurstöðurnar. Pundið veikist þegar kannanir sýna aukningu við fylgi útgöngumanna og öfugt.

Þingkonan Jo Cox var myrt skömmu fyrir helgi en hún hafði verið fylgjandi því að Bretland héldist innan Evrópusambandsins. Eftir morðið á Cox jókst fylgi þeirra sem vilja halda Bretlandi í Evrópusambandinu og var 45% gegn því að 42% vildu ganga úr sambandinu. Ljóst er að áhugavert verður að fylgjast með niðurstöðum kosninga Breta og áhrifanna sem þær munu hafa á markaði.