Íslenska krónan hefur styrkst mikið undanfarin misseri. Á síðustu tveimur árum hefur pundið lækkað um 27% gagnvart krónunni, Kanadadollari um 20%, evra um 17% og Bandaríkjadollari um 7%. Þorri erlendra ferðamanna, sem leggja leið sína til landsins, kemur frá löndum sem notar þessa gjaldmiðla. Bandaríkjamenn eru fjölmennastir, svo koma Bretar, þá Þjóðverjar, svo Frakkar og loks Kanadabúar. Á fyrstu níu mánuðum ársins komu tæplega 800 þúsund ferðamenn frá þessum löndum til Íslands samanborið við 560 þúsund samanlagt frá öðrum löndum.

Bandaríkjadollari hefur staðið sig best gagnvart krónunni. Hvort sú staðreynd hafi eitthvað með það að gera að bandarískum ferðamönnum hafi fjölgað um ríflega 63% milli ára er erfitt að svara. Sömuleiðis er erfitt að svara því hvernig standi á því að breskum ferðamönnum hafi fjölgað um tæp 32% milli ára þrátt fyrir að pundið hafi verið í frjálsu falli frá því Bretar ákváðu að segja skilið við Evrópusambandið og að gagnvart krónu hafi það lækkað um heil 27% á tveimur árum.

Hvar liggja þolmörkin?

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ansi merkilegt að það virðist lítil fylgni á milli styrkingar krónunnar og fjölda erlendra ferðamanna.

„Það er ekki að sjá að gengisþróunin hafi nein áhrif á komur erlendra ferðamanna því þeim hefur fjölgað um 30% á ári síðustu tvö ár," segir Grímur. „Það er einfaldlega gríðarleg eftirspurn eftir Íslandi og vöxturinn á Bandaríkjamarkaði er til dæmis ævintýralegur. Þegar við horfum á næsta ár þá virðist heldur ekkert lát vera á eftirspurninni. Hvað gengisþróunina snertir þá eru vafalaust einhver þolmörk en við erum greinilega ekki komin að þeim. Hvar þau liggja veit ég ekki, ekki frekar en nokkur annar.

Þó ferðamönnum sé að fjölga þá vitum við ekki nákvæmlega hverskonar ferðamenn þetta eru sem hingað koma. Það þyrfti að greina það frekar. Þó ég viti það ekki grunar mig til dæmis að það séu að verða breytingar innan breska markaðarins. Að tekjuháir Bretar séu í auknum mæli að ferðast hingað og að gengisþróunin hafi sem sagt valdið því að efnaminni Bretar haldi frekar að sér höndum. Það væri fróðlegt að skoða þetta nánar."

Krónan og fyrirtækin

Þó styrking krónunnar virðist lítil áhrif hafa komur erlendra ferðamanna hefur hún áhrif á ferðaþjónustufyrirtæki.

„Þó ferðamenn séu að koma hingað og séu að eyða jafnmörgum dollurum og evrum og áður þá eru ferðaþjónustuaðilarnir ekki að fá jafnmiklar tekjur í krónum talið og þeir fengu fyrir nokkrum misserum. Gengisþróunin getur því haft áhrif á afkomu og arðsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu. Þetta er samt misjafnt eftir því á hvaða mörkuðum fyrirtækin eru að vinna. Svo er þetta jafnvel ekki svo einfalt því markaðirnir eru líka misjafnlega viðkvæmir fyrir verðbreytingum. Þýski markaðurinn hefur til dæmis alltaf verið mjög viðkvæmur að þessu leyti en Bandaríkjamarkaður síður viðkvæmur."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .