Kosning Donald Trump í forsetastól vestanhafs hefur haft mikil áhrif á gjaldmiðla víðs vegar um heiminn. Áhyggjur heimsbyggðarinnar yfir því hvað Trump komi til með að gera sem forseti hafa endurómað í vestrænum miðlum. Hins vegar er það breska pundið sem stendur sig hvað best í kjölfar kosningar Trump. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.

Sterlingspundið styrkti sig talsvert í vikunni og kom betur út en 31 af stærstu gjaldmiðlum heims. Pundið hefur rétt úr kútnum eftir að dómur féll í Brexit-málinu — þar sem að úrskurðað var að breska þingið yrði að staðfesta útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Pundið hefur ekki styrkst eins mikið á stuttum tíma gagnvart evru á síðustu sjö árum. Pundið styrkist um 0,8% í vikunni sem er að líða og stóð sig hlutfallslega gífurlega vel gagnvart öðrum gjaldmiðlum sem lækkuðu flestir.