Margir hafa spáð því að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu gæti haft alvarleg áhrif á gengi breska pundsins. Nú á dögunum kom það fyrir, eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á mánudag, að pundið hrundi í verði þegar Boris Johnson borgarstjóri Lundúna sagðist styðja útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Fréttaveita Bloomberg gerði könnun meðal rúmlega þrjátíu hagfræðinga, en um tæpur helmingur þeirra telur að pundið myndi hríðfalla niður í og undir 1,25 Bandaríkjadal per Sterlingspund. Eins og stendur er gengið um 1,35 Bandaríkjadalur á hvert Sterlingspund, en eftir fyrrnefnd ummæli Boris Johnson lækkaði það um 1,7%, en síðast var það svo lágt árið 2009.

Sjö hagfræðingar þeirra rúmlega þrjátíu spá því að með úrsögn Bretlands félli pundið niður í undir 1,2 Bandaríkjadali per Sterlingspund. Ef spár þessara hagfræðinga ganga eftir gæti úrsögn Bretlands úr ESB orðið pundinu þungbær. Greiningardeild fjárfestingarbankans Goldman Sachs spáir allt að 20% verðhruni ef til þess kemur að úrsögnin verður að veruleika.

'Brexit'-umræðan svokallaða hefur orðið mikið hitamál í Bretlandi, en stjórnmálamenn jafnt sem fyrirtæki og aðrar stofnanir hafa keppst við að deila skoðunum sínum  á því hver staða Bretlands innan ESB ætti að vera, og hvort hún ætti að vera innan þess yfir höfuð.