Breska sterlingspundið sveiflaðist talsvert í morgun í kjölfar þess að Theresa May forsætisráðherra Bretlands, boðaði óvænt til þingkosninga á blaðamannafundi fyrr í morgun. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg .

Sterlingspundið féll um 0,4 prósentustig í aðdraganda yfirlýsingu Theresu May, en styrktist á ný eftir að hún tilkynnti um kosningarnar og er nú 0,1% sterkara og jafngildi 1,26 dollurum stuttu eftir klukkan ellefu í Lundúnum.

Ávöxtunarkrafa á bresk 10 ára ríkisskuldabréf var 1,02 eftir að hafa fallið um eitt prósentustig. FTSE 100 vísitalan hefur lækkað um 1,2 prósentustig í dag og FTSE 250 vísitalan hefur sömuleiðis lækkað um 0,8 prósentustig.