Á árinu 2016 hefur breska pundið veikst um meira en 15%, en samkvæmt umfjöllun BBC er það ekki eingöngu vegna atkvæðagreiðslunnar um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu heldur einnig vegna stýrivaxtaákvarðana og óvissu.

Ef horft er til gengisins fyrir ári síðan er það nú 13,27% veikara gagnvart Bandaríkjadal, en ef horft er á það þegar það stóð sem hæst rétt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, er það 17,52% hærra.

Þjóðaratkvæðagreiðslan hafi búið til óvissu um horfur í bresku hagkerfi, þó að svartsýnustu væntingarnar um hvað myndi gerast strax í kjölfar þess að kosið yrði um úrsögn hafi ekki reynst réttar. Óvissan er þó talin hafa haft þar áhrif, en einnig aðgerðir Englandsbanka.

Stjórnandi bankans, Mark Carney hafi gefið það sterklega til kynna að úrsögn úr ESB myndi þýða veikari hagvöxt, sem markaðir virðast hafa túlkað sem svo að það myndi þýða lækkun stýrivaxta og jafnvel að magnbundin íhlutun á skuldabréfamörkuðum myndi halda áfram, það er að skuldabréf yrðu keypt fyrir það fé sem bankinn gæfi út.

Í ágúst gerðist einmitt hvort tveggja en veikingin kemur einnig til vegna aðgerða bandaríska seðlabankans sem eru í þveröfuga átt.

Allt árið hafa fjármálamarkaðir verið að velta fyrir sér hvenær hann myndi halda áfram að hækka stýrivextina, eftir að hafa hækkað þá árið á undan í fyrsta sinn síðan efnahagskrísan hófst 2008. Það var loksins í desember sem bankinn lét verða af því að hækka stýrivextina.