Vladimír Pútín er öruggur sigurvegari forsetakosninganna í Rússlandi, en samkvæmt útgönguspám fær Pútín 74% atkvæða. Frá þessu er greint á vef BBC . Búið er að telja tæplega þriðjung atkvæða þegar þetta er ritað.

Eins og sakir standa er helsti andstæðingur Pútíns, kommúnistinn Pavel Grudunin, með 14,4% atkvæða. Þá er Vladimír Zhirinovsky með 6,5% atkvæða. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Alexei Navalny, mátti ekki bjóða sig fram. Navalny var dæmdur fyrir brot sem hann segir að sé af pólitískum rótum runninn, en hann hefur sakað stjórnvöld um kosningasvindl.

Um 107 milljónir eru á kjörskrá í þessu stærsta landi heims. Kosningaþátttakan er í kringum 60%.

Úrslit forsetakosninganna koma ekki á óvart, en Pútín var spáð öruggum sigri. Í síðustu forsetakosningunum árið 2012 hlaut Pútín 64% atkvæða.

Pútín hefur setið óslitið við völd í Rússland frá upphafi 21. aldarinnar. Hann var first kjörinn í Kreml árið 2000 og svo aftur fjórum árum síðar. Stjórnarskrá Rússlands kom í veg fyrir endurkjör í þriðja skiptið í röð árið 2008. Það ár varð Pútín hins vegar forsætisráðherra Rússlands og var kjörtímabil forseta jafnframt lengt, úr fjórum árum í sex. Árið 2012 bauð Pútín sig fram á nýjan leik til forseta og sigraði. Nú er ljóst að Pútín verður leiðtogi Rússlands fram til 2024, eða þar til hann verður 72 ára.