Vladimir Pútín hefur stofnað nýtt matsfyrirtæki sem mun meta lánshæfi- og horfur á fyrirtækjum og stjórnvöldum í Rússlandi. Moody's og Fitch tilkynntu að þau ætluðu að draga úr, og mögulega hætta, að gefa út álit í Rússlandi. Ástæða þess er annars vegar að þau eru hrædd við að brjóta gegn efnahagsþvingunum sem settar hafa verið á landið og hins vegar að þau vilja ekki vera undir regluverki stjórnvalda í Rússlandi.

Rússland hefur þrengt að starfsemi matsfyrirtækjanna í Rússlandi undanfarið eftir að þau lækkuðu lánshæfismat landsins. Stjórnvöld í Rússlandi sögðu að ákvörðun matsfyrirtækjanna væri gert á grundvelli stjórnmála og undir þrýstingi stjórnmálaandstæðinga Rússlands.

Ríkisstjórnin gaf nýlega út nýja reglugerð um kröfur sem matsfyrirtækin þurfa að uppfylla, en m.a. í kjölfar þeirrar reglugerðar ákváðu fyrirtækin að draga sig úr landinu. Matsfyrirtækið ACRA, sem er stofnsett í Singapor, hefur hins vegar sótt um leyfi í landinu og verður þá líklega eina erlenda fyrirtækið sem hefur leyfi til að meta rússnesk fyrirtæki.

Ónæmt fyrir áhættu tengdri alþjóðastjórnmálum

Seðlabanki Rússlands tilkynnti í júlí sl. að hann ætlaði að stofna fyrirtæki sem væri ónæmt fyrir áhættu tengdri alþjóðastjórnmálum. Sú tilkynning kom á sama tíma og olíuverð lækkaði mikið og matsfyrirtækin S&P og Moody's lækkuðu lándshæfiseinkunn Rússlands. Fyrirtækið hefur nú verið stofnað og það mun einbeita sér að Rússlandi og öðrum fyrrum Sovíet ríkjum.