Rússar segja árás Bandaríkjamanna í nótt á flugvöll sýrlenska hersins brot á alþjóðalögum.

Dmitry Peskov, talsmaður Vladimir Putin forseta Rússlands sagði hann lýta á flugskeytaárásina á Shayrat flugvöllinn sem árás á sjálfstætt ríki sem bryti á alþjóðalögum.

Segja efnavopnaárás ekki að undirlagi Assad

„Skref stjórnvalda í Washington mun valda miklum skaða í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands,“ sagði hann.

Jafnframt ítrekaði Peskov að forseti Sýrlands, Bashar Assad, væri ekki á bak við efnavopnaárásina sem var gerð á bæinn Khan Shaykhun í vesturhluta Sýrlands á þriðjudag.

Bærinn er undir stjórn uppreisnarmanna gegn stjórn Assad undir forystu íslömsku Al-Nusra hreyfingarinnar sem tengist Al-Quada, þar sem allt að 86 manns eru sagðir hafa látist, þar af 27 börn.

Bandaríkjamenn vöruðu við fluskeytaárásinni

Rússneskar sveitir í Sýrlandi urðu ekki fyrir áhrifum af flugskeytaárásin sem Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði í nótt, en 59 flaugum var skotið af bandarísku skipunum USS Porter og USS Ross á Miðjarðarhafi.

Beindust þær að flugskýlum, flugvélum, eldsneytistönkum, vopnageymslum og loftvarnarkerfum á flugvellinum og létust að minnsta kosti fjórir og fjöldi sýrlenskra hermanna slasaðist.

Samt sem áður höfðu Bandaríkjamenn látið vita af árásinni til að takmarka mannfall að sögn hershöfðingjans Jeff Davis, talsmanns varnarmálaráðuneytisins.

Viðbrögð við efnavopnaárás

Í annarri efnavopnaárás á bæinn Ghouta snemma í sýrlenska borgarastríðinu létust allt frá 281 til 1.729 manns, en þrátt fyrir að hafa sagt að notkun efnavopna væri lína í sandinn sem Bandaríkin myndu ekki sætta sig við urðu brást stjórn Obama fyrrum Bandaríkjaforseta ekki við með hernaðaraðgerðum.

Borgarastyrjöldin hefur haldið áfram að geysa í landinu síðan árásin var gerð, Rússar hófu beina hernaðaraðstoð við Sýrlandsstjórn og hið svokallaða Íslamska ríki, ISIS, hefur vaxið ásmegin á svæðinu. Ítök Rússa í Úkraínu með yfirtöku á Krímskaga og stuðningi við uppreisnarmenn í austurhluta landsins hafa einnig vaxið á tímanum sem liðinn er frá árásinni.