Vladimír Pútín undirritaði á gamlárskvöld skjal sem nefndi Bandaríkin sem ein af ógnum við þjóðaröryggi Rússlands. Skjalið markaði þjóðaröryggisstefnu Rússlands og leysir af hólmi fyrra skjal sem undirritað var af þáverandi forseta, Dmitry Medvedev, þar sem hvorki var minnst á Bandaríkin eða NATO.

Í skjalinu segir að hlutverk Rússlands við lausn alþjóðlegra vandamála og deilna hafi stækkað og að það hlutverk hafi valdið viðbrögðum frá Vesturlöndum. „Styrking Rússlands á sér stað á sama tima og nýjar ógnir blasa við þjóðaröryggi landsins sem eru flóknar og samtengdar,“ segir í skjalinu. „Með því að hafa markað sjálfsstæða stefnu innan lands sem og utan hefur Rússland þurft að mæta viðbrögðum frá Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra, sem reyna með erfiðismunum að halda yfirráðum sínum í heimsmálunum.“