Vladimír Pútin Rússlandsforseti fór um víðan völl á árlegum fréttamannafundi sínum í dag þar sem hann sagðist meðal annars ekki sjá neina möguleika til að bæta samskiptin við Tyrki eftir að tyrkneski flugherinn skaut niður rússneska orrustuþotu yfir Sýrlandi á dögunum. Sagði hann að í stað þess að skjóta vélina niður hefðu Tyrkir átt að ræða við Rússa um áhyggjur þeirra af loftárásum hinna síðarnefndu á Túrkmena í Sýrlandi. Þess í stað hafi Tyrkir ákveðið að „sleikja Bandaríkjamennina á ákveðnum stað“.

Hann lýsti yfir aðdáun sinni á forsetaframbjóðandanum Donald Trump, sem hann sagði mjög litríkan og hæfileikaríkan mann. Hann lofaði einnig Sepp Blatter, forseta FIFA, og lagði til að Blatter fengi friðarverðlaun Nóbels. Hann neitaði því að rússneskir hermenn væru á þeim svæðum sem eru undir stjórn uppreisnarmanna í Úkraínu, en sagði að hugsanlega væri þar fólk sem væri að „framkvæma ákveðna hluti, þar á meðal hernaðarlega.“

Hann spáði því að hagvöxtur í Rússlandi yrði 0,7% á næsta ári, 1,9% árið 2017 og 2,4% árið 2018, miðað við að olíuverð sé 50 dalir á fatið. Á þriðja ársfjórungi þessa árs mældist efnahagslegur samdráttur í Rússlandi upp á 4,1% á ársgrundvelli.